Lux veitingar var stofnað árið 2018 af Hinriki Erni Lárussyni og Viktori Erni Andréssyni. Eins og nafnið gefur til kynna þá stendur Lux veitingar fyrir lúxus, gæði og fyrsta flokks þjónustu.
Við vitum að góð veisluþjónusta þarf að gera fleira en að framreiða góðan mat. Þess vegna leggjum við áherslu á góða þjónustu svo þú getur treyst því að hugsað sé fyrir hverju smáatriði og hver veisla sé einstök og sérsniðin að þínum óskum.
Við hjá Lux veitingum erum þekkt fyrir að hugsa út fyrir kassann og saman getum við töfrað fram draumaveisluna þína. Sama hvert tilefnið er þá vitum við að þín veisla á skilið það besta. Við eldum matinn á staðnum sem tryggir ferskleika matarins. Við getum sett upp fullbúið eldhús hvar sem er og reitt fram ógleymanlega veislu sama hvort þemað er látlaus steikarveisla í óbyggðum eða smáréttahlaðborð í borðstofunni þinni – okkur er ekkert er ómögulegt.
Viktor Örn er einn virtasti matreiðslumaður Íslands en hann hlaut titilinn kokkur ársins árið 2013, sigraði Norðurlandameistaramót matreiðslumanna árið 2014 og náði einum besta árangri íslensks matreiðslumanns þegar hann hlaut bronsverðlaun í hinni virtu matreiðslukeppni Bocuse D‘or árið 2017, auk þess sem hann var um árabil í kokkalandsliðinu. Hann byrjaði að vinna í eldhúsi 15 ára gamall, sem uppvaskari og aðstoðarmaður á Kaffi Victor, og fljótlega komst hann á námssamning hjá Hótel Sögu. Honum finnst skemmtilegast að elda góða steik, ekki síst eitthvað á beini, en fyrir utan matreiðsluna hefur hann áhuga á ferðalögum, stangveiði og mótorkrossi. Allra best er þó að borða góða steik og drekka gott rauðvín með.
Þrátt fyrir ungan aldur er Hinrik Örn einn færasti matreiðslumaður landsins en hann sigraði keppnina Kokkanemi ársins 2017 og landaði silfri á norrænu nemakeppninni árið 2018. Hinrik var aðstoðarmaður Viktors Arnar á Bocuse D‘or keppninni árið 2017 þar sem þeir unnu til bronsverðlauna. Hinrik var í landsliði matreiðslumeistara árið 2018 og árið 2018 sigraði hann Evrópukeppnina í matreiðslu. Þá tók hann þátt í og sigraði matreiðslukeppnina Kokkur Ársins 2024. Hinrik ólst upp í bransanum, bjó á hóteli fyrstu 18 ár ævi sinnar þar sem móðir hans rak Hótel Heklu. Hann tók fyrstu kokkavaktirnar 15 ára og fór á nemasamning hjá Hótel Sögu 17 ára. Hinrik hefur áhuga á laxveiði og ferðalögum, og hefur unun að góðri steik með góðu rauðvíni.